Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hefur óskað eftir því að hætta störfum um áramótin að því er RÚV greinir frá uppúr bréfi sem hann sendi samstarfsmönnum sínum í morgun.

Í bréfinu býðst hann til að vera ráðherra innan handar og gefa ráð fyrir endurskipulagningu löggæslumála á Íslandi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dmsmálaráðherra hefur boðað til blaðamannafundar um lögregluna klukkan 13:00 í dag.

Haraldur hefur starfað sem ríkislögreglustjóri frá árinu 1998, en þar áður starfaði hann fyrst sem varalögreglustjóri í Reykjavík í tvö ár og um átta ár sem fangelsismálastjóri. Haraldur er sonur hjónanna Matthíasar Johannessens skálds og fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og Hönnu Johannessen hárgreiðslumeistara.

Vill sameina lögregluna í eitt embætti, lögreglustjórar lýsa vantrausti

Haraldur segir í bréfinu að honum finnist óhjákvæmilegt og heillavænlegast að í fámennu samfélagi eins og Íslandi sé einn lögreglustjóri, það er eitt æðsta embætti í einu löggæsludæmi. Það myndi stuðla að meiri skilvirkni og betri nýtingu á skattfé.

Það var einmitt viðtal í Morgunblaðinu sem átta af 9 lögreglustjórar lögregluembætta landsins báru fyrir sig þegar þeir lýstu vantrausti á Haraldi sem Ríkislögreglustjóra. Þar hafði hann þó vísað í átök sem þegar höfðu verið í gangi þar sem hann sagði að verið væri að dreifa rangfærslum og rógburði um hann til að hrekja sig úr embætti. Óðinn fjallaði ítarlega um deilurnar í septemberlok .

Haraldur sjálfur segir ástæðu deilnanna vera vegna inngripa hans í starfshætti og framkomu einstakra lögreglumanna sem og óánægju með að aðilar hafi ekki fengið þann framgang innan lögreglunnar sem þeir höfðu óskað eftir. Jafnframt sagði hann að ef til starfsloka hans kæmi leiddi það til ítarlegri umfjöllunar hans um valdabaráttuna sem hann sagði vera bak við tjöldin.

Í október var greint frá því að dómsmálaráðuneytið hafði ákveðið að áminna ekki Harald vegna bréfs sem hann sendi á bréfsefni embættisins þar sem hann andmælti umfjöllun þeirra um efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra. Sakaði hann þar fjölmiðlamennina um að bera ábyrgð á svokallaðri ólögmætri meingerð, sem er lögfræðilegt hugtak yfir árás á æru og heiður viðkomandi.