Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, fer með 1,3% hlut í Solid Clouds samkvæmt uppfærðum hluthafalista. Hann kemur nýr inn á listann og því má ætla að hann hafi tekið þátt í hlutafjárútboðinu í byrjun júlí þar sem tölvuleikjafyrirtækið safnaði 725 milljónum króna. Hafi hann ekki átt hlut í félaginu áður þá má gera ráð fyrir að Haraldur hafi alls keypt fyrir 30 milljónir króna í Solid Clouds, miðað við útboðsgengið.

Haraldur seldi Ueno til Twitter í byrjun árs og er talið að kaupverðið hafi hlaupið á milljörðum króna. Í kjölfar sölunnar hefur Haraldur ráðist í átak að setja upp hundrað rampa í miðborg Reykjavíkur og vinnur að því að opna kaffihús með litlum kvikmyndasal á jarðhæð Tryggvagötu 11. Hann hyggst einnig opna listamannasetur á Kjalarnesi árið 2023.

Fjárfestingafélagið Frigus ehf., í eigu Bakkavararbræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona, kemur einnig nýtt inn á hluthafalistann og er fimmti stærsti hluthafi Solid Clouds með 2,6% hlut. Gera má ráð fyrir að félagið hafi greitt 60 milljónir fyrir hlutinn. Festa lífeyrissjóður og Sjóvá keyptu einnig bæði fyrir 25 milljónir króna í útboðinu og eru í dag með sitthvorn 1,1% hlut.

Sjá einnig: Solid Clouds gefur út nýjan Starborne

Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri Solid Clouds, er eftir sem áður stærsti hluthafi fyrirtækisins en hann á 10,4% beinan hlut, að andvirði 240 milljónum króna miðað við útboðsgengið. Hann stofnaði tölvuleikjafyrirtækið ásamt Stefáni Björnssyni fjármálastjóra sem fer með 3,8% beinan hlut. Þeir eiga báðir óbeint hlut í Solid Clouds í gegnum Eignarhaldsfélagið CHOAM ehf.

Kjölur fjárfestingafélag, í eigu Guðmundar Inga Jónssonar og Þorláks Traustasonar, er næst stærsti hluthafinn með 6,6% hlut. Guðmundur Ingi situr í stjórn Solid Clouds og Þorlákur er varamaður í stjórn. Sigurður Arnljótsson, framkvæmdastjóri Brunns Ventures, fylgir þeim á eftir með 4,1% hlut.

Meðal annarra hluthafa Solid Clouds er S9 ehf., fjárfestingarfélag Margrétar Ásgeirsdóttur, sem fer með 1,9% hlut. Eggert Árni Gíslason, framkvæmdastjóri heildverslunarinnar Mata, á 1,3% hlut í Solid Clouds en hann situr jafnframt í stjórn tölvuleikjafyrirtækisins.