Skuldir þjóðarbúsins eru mun verri en margir gera sér grein fyrir. Stærstur hluti skuldanna liggur þó hjá fyrirækjum, ýmist í einkaeigu eða opinberri eigu.

Þetta sagði Haraldur L. Haraldsson, framkvæmdastjóri Nýsis á hádegisverðafundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) um stöðu þjóðarbúsins sem nú stendur yfir.

Í erindi sínu sagði Haraldur að það væri með öllu óásættanlegt að almenningur á Íslandi yrði látinn bera ábyrgð á skuldum fyrirtækja í einkaeigu, til dæmis Icesave skuldanna svokölluðu.

Eins og fyrr segir liggja erlendar skuldir helst hjá fyrirtækjum og hlutfallslega ekki nema lítill hluti af þeim hjá einstaklingum. Þannig benti Haraldur á að frá árslokum 2007 fram í lok september 2008 hafi gengisbundin skuldabréf og yfirdráttur í erlendri mynt aukist um 90% og verið við lok september tæpar 3 þúsund milljónir króna. Þar af voru skuldir almennings „ekki nema“ tæpir 160 milljarðar króna.

Haraldur benti sérstaklega á að einstaka aðilar ættu stóran hluta þessara erlendu skulda. Þannig ættu Jón Ásgeir Jóhannesson, Ólafur Ólafsson og tengdir aðilar og loks Bakkabræður, þeir Ágúst og Lýður Guðmundssynir um 13% allra erlendra skulda hér á landi. Í erindi sínu lýsti Haraldur yfir hneykslan sinni á þeim miklu skuldum sem fáir aðilar hefðu stofnað til og ítrekaði þá skoðun sína að almenningu rætti ekki að bera ábyrgð á því.

Haraldur varaði við því að mögulegar eignir yrðu reiknaðar á móti erlendum skuldum til að  finna út nettó skuldarstöðu. Hann sagði erfitt að meta verðmæti eignanna auk þess sem ljóst væri að hvað sem öðru líður þarf að greiða skuldirnar.

Þá sagði Haraldur nauðsynlegt að samið yrði við erlenda kröfuhafa erlendu bankanna og leitað leiða til að gera upp skuldirnar. Hann sagði fall bankanna íslenska hagkerfinu ofviða og ljóst að almenningur gæti ekki borið þær byrgðar.