Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur segir forsendur brostnar fyrir þeim útreikningi vísitölu neysluverðs sem notaður er við útreikning á verðtryggðum lánum landsmanna. Grunnurinn sé hreinlega rangur og taki mið af neyslunni sem var meðan allt lék í lindi. Auk þess megi rekja megi vísitöluhækkun að verulegu leyti til stöðutöku bankanna gegn krónunni. Það hafi skapað gengisfall og hækkun vöruverðs og þar með hafi skuldir heimilanna aukist verulega.

Haraldur segir nú lag til að leiðrétta þá vísitöluskekkju sem myndast hafi. Áhrifum af spákaupmennsku með krónur verði eytt og tekið tillit til breytts neyslumynsturs. Ekki sé um að ræða að fella niður skuldir, heldur sanngjarna leiðréttingu á verðtryggingu vegna áhrifa af spákaupmennsku og hruni efnahagskerfisins.

Haraldur ritaði grein um þetta í Fréttablaðinu í gær og telur nauðsynlegt að leiðrétta þessa skekkju. Hann spyr m.a.:

„Hvernig er hægt að færa rök fyrir því að heimilin taki á sig 100 milljarða króna hækkun á skuldum frá sept. til des. 2008 vegna hruns bankanna?”

Haraldur segir í samtali við Viðskiptablaðið að þegar leikreglur verðtryggingar hafi verið settar um 1980 hafi ekki verið gert ráð fyrir að lántakendur þyrftu að standa frammi fyrir þeim vanda sem nú er kominn upp. Þá hafi líka verið gert ráð fyrir að laun hækkuðu í takt við verðtryggingu lána.

Samkvæmt útreikningum Haraldar jukust skuldir heimilan á tímabilinu janúar til september 2008 um 342 milljarða króna. Miðað við framreikning frá september til loka árs 2008 telur Haraldur að skuldir heimilanna við lánakerfið hafi í heild aukist um hundrað milljarða til viðbótar og hafi því verið 458 milljarða króna á árinu 2008. Það er tvöfalt meiri aukning en frá árinu áður.

Haraldur segir leiðréttingu á þessari vísitöluskekkju mun sanngjarnari en sá flati niðurskurður á höfuðstól lána sem lagður hafi verið til að undanförnu. Sá niðurskurður er auk þess talinn muni valda verulegu tapi hjá Íbúðalánasjóði. Flatur niðurskurður komi ekki síður þeim til góða sem eru þokkalega staddir eignalega, en hinum sem eiga í miklum vandræðum vegna hækkana verðtryggðra lána á undanförnum árum.

„Mér finnst ekki hægt að færa rök fyrir því að þeir sem eigi peninga eigi að græða á hruninu. Ef þessi leiðréttingarleið yrði farin, myndi hún virka á báða vegu gagnvart skuldurum og kröfuhöfum. Ég tel að þá myndist heldur ekki tap hjá Íbúðalánasjóði eins og myndi gerast með flötum niðurskurði.”