Ueno, stafræna hönnunarfyrirtækið sem Haraldur Þorleifsson stofnaði, stýrði og átti, á stóran þátt í nýju útliti móðurfélags Facebook. Haraldur greinir frá þessu á Twitter.

Facebook tilkynnti í dag að fyrirtækið muni hér eftir heita Meta. Nafn vinsælasta samfélagsmiðils heims verður áfram Facebook en fyrirtækið á einnig miðla á borð við Instagram og Whatsapp. Facebook hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir ofuráherslu á auglýsingatekjur og hagnað á kostnað persónuverndar og ýmissa fleiri þátta er snúa að velferð notenda.

Haraldur seldi Ueno til Twitter í byrjun þessa árs en fram að því vann fyrirtækið með mörgum af stærstu fyrirtækjum heims á borð við Google, Facebook og Apple.

Haraldur segir frá því á Twitter síðu sinni að nafnabreyting Facebook sé byggð á sjónrænu krefi sem Ueno hannaði með Facebook áður en Twitter keypti fyrirtækið af honum. Fyrirtæki á borð við Facebook rjúki ekki til og búi til nýtt vörumerki á nokkrum vikum.

Kaupverðið Twitter á Ueno var trúnaðarmál en Ueno ehf., sem er í fullu í eigu Haraldar, hagnaðist um 730 milljónir króna á síðasta ári.