Eins og fram kom fyrr í dag hefur Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, verið ráðinn aðstoðarforstjóri Nýherja og mun hefja þar störf í vikunni.

Í tilkynningu á vef Viðskiptaráðs kemur fram að gengið hafi verið frá ráðningu Haraldar I. Birgissonar, núverandi aðstoðarframkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, í starf framkvæmdastjóra og mun hann sinna daglegum rekstri ráðsins, verkefnastýringu og samskiptum við stjórn og félaga.

Haraldur hefur starfað hjá VÍ frá árinu 2007, fyrst sem lögfræðingur Viðskiptaráðs og frá árinu 2010 sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Haraldur er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og aflaði sér lögmannsréttinda árið 2011. Hann mun gegna starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs a.m.k. fram yfir Viðskiptaþing í febrúar, en þá verður tekin ákvörðun um ráðningu til lengri tíma.

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, segir á vef ráðsins að mikill missir verði af kröftum Finns í starfi ráðsins, en Finnur eigi að baki ríflega fimm ára afar farsælt og óeigingjarnt starf sem framkvæmdastjóri á róstusömum tímum í íslensku efnahagslífi.

„Undir forystu Finns hefur verið unnið að töluverðum umbótum í starfi ráðsins. Hafa þær einkum byggt á aukinni aðkomu stjórnarmanna og félaga að stefnumótun og málefnastarfi, faglegri útgáfu, sérstakri áherslu á góða stjórnarhætti og þeirri sýn að hagsmunir heimila og fyrirtækja á Íslandi liggi saman og illa verði skilið á milli,“ segir í tilkynningunni.

„Eins og fyrr hefur Viðskiptaráð lagt sérstaka áherslu á mikilvægi menntunar fyrir uppbyggingu atvinnulífs og samfélags og er m.a. helsti bakhjarl Háskólans í Reykjavík í gegnum sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs um viðskiptamenntun. Finnur hefur komið að þessu starfi með virkum hætti og m.a. veitt háskólaráði HR formennsku á undanförnum árum. Hann mun áfram sinna því mikilvæga hlutverki fyrir hönd ráðsins.“