Haraldur Stefánsson, fyrrverandi slökkviliðsstjóri Keflavíkurflugvallar, hlaut nýlega útnefningu í frægðarhöll björgunarþjónustu bandaríska sjóhersins  „The Navy Fire and Emergency Services - Hall of Fame".

Í tilkynningu segir að aðeins slökkviliðsstjórum sem getið hafi af sér sérstakan orðstír í störfum sínum fyrir sjóherinn sé veittur þessi heiður. Inntaka í frægðarhöllina sé ákveðin með kosningu starfandi slökkviliðsstjóra í sjóhernum.

„Haraldur Stefánsson byrjaði feril sinn hjá flugher Bandaríkjanna sem sjúkraflutningamaður. Hann varð slökkviliðsmaður hjá flughernum 1955 og lauk ferlinum sem slökkviliðsstjóri Keflavíkurflugvallar árið 2005 eftir 50 ára starf. Haraldur sinnti meðal annars störfunum slökkviliðsmaður (Firefighter Airfield/Structural), var settur eldvarnaeftirlitsmaður (Fire Inspector) árið 1964, aðstoðarslökkviliðsstjóri (Assistant Chief) 1968, varaslökkviliðsstjóri (Deputy Fire Chief) 1976 og loks slökkviliðsstjóri (Fire Chief) árið 1986 til 2005”

Haraldur veitti viðurkenningunni formlega móttöku þann 14. ágúst við athöfn í Denver, Colorado, USA.