Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, hefur ákveðið að sækjast eftir öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar næsta vor. Valið verður á listann 25. nóvember.

Á vef Bændablaðsins kemur fram að Haraldur segist  í starfi sínu hjá BÍ hafa hvatt bændur mjög til að láta til sín taka í þjóðfélagsumræðunni. Því geti hann ekki vikist undan slíkri áskorun þegar  hann var sjálfur hvattur til að gefa kost á sér í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

„Ég er fullur tilhlökkunar. Þetta getur orðið mjög stuttur ferill og aðeins hálfur mánuður til stefnu. Þetta geta líka orðið fjögur ár,“ segir Haraldur í samtali við Bændablaðið.

„Ég er hvergi banginn við að tala máli landbúnaðarins. Ég er ekki síst að þessu til að rödd bænda og landbúnaðarins heyrist, þar slær hjartað.“

Tveir aðrir einstaklingar hafa gefið kost á sér í annað sætið hjá Sjálfstæðisflokknum á Norðvesturlandi, þau Bergþór Ólason og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir.