Haraldur Sverrisson bæjarstjóri býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor   Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.  Haraldur er fæddur 1961 og fluttist í Mosfellsbæinn árið 1969. Hann er stúdent frá Menntaskólanum við Sund og lauk prófi í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands árið 1987.  Hann stundaði framhaldsnám í fjármálum og stjórnun við University of Arizona árið 2001.  Maki Haraldar er Ragnheiður Gunnarsdóttir, viðskiptafræðingur og forstöðumaður hjá Fjársýslu ríkisins.  Börn eru Steinunn Anna 28 ára, Valgerður Rún 18 ára og Sverrir 9 ára.   Haraldur starfaði sem framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Vals árin 1986 til 1988.  Árið 1988 hóf Haraldur störf hjá fjármálaráðuneytinu og starfaði þar til ársins 2007, lengst af sem skrifstofustjóri rekstrar- og upplýsingaskrifstofu ráðuneytisins.  Frá september árið 2007 hefur Haraldur gegnt starfi bæjarstjóra Mosfellsbæjar.  Hann er jafnframt formaður stjórnar samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu segir í tilkynningu.   Haraldur var varabæjarfulltrúi árin 1998-2002 og á því kjörtímabili var hann nefndarmaður í skipulags- og byggingarnefnd og menningarmálanefnd.  Hann var í 2. sæti á framboðslista sjálfstæðismanna fyrir sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2002 og hefur setið í bæjarstjórn síðan.  Haraldur var formaður bæjarráðs og skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar þar til hann var ráðinn bæjarstjóri haustið 2007.