Hver er fjárhæð endurálagningar tekjuskatts vegna öfugs samruna lögaðila árin 2008 til 2013? spyr Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur lagt fram spurningar á Alþingi fyrir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra sem snúa að svokölluðum öfugum samruna.

Málið sem Haraldur vísar til er svokallaður Toyota-dómur sem féll í Hæstarétti fyrir um ári. Málið snerist í stuttu máli um það að vaxtakostnaður vegna öfugs samruna fyrirtækja sé ekki frádráttarbær frá skatti. Málið í Hæstarétti fjallaði um kaup félagsins Bergey á P. Samúelsson, eiganda Toyota á Íslandi. P. Samúelsson tók síðan Bergey yfir ásamt skuldum og eignum og taldi vaxtagjöldin af láninu frádráttarbær frá skatti.

Vill vita hvað margir fengu rukkun

Eins og spurning Haraldar ber með sér á þetta við um fleiri fyrirtæki. Þar á meðal er bílaskoðunarfyrirtækið Frumherji, sem Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr á þessu ári. Þar hafði félagið Bil ehf keypt rekstur Frumherja árið 2007. Frumherji tók síðan félagið yfir en greiddi af lánum þess. Endurákvörðun ríkisskattstjóra hljóðaði upp á 395 milljónir króna. Reikningurinn olli því að fjárhagslegri endurskipulagningu Frumherja var hraðað.

Haraldur vill m.a. að Bjarni svari því hversu margir lögaðilar hafi fengið endurálagningu og hversu mikla. Þá spyr Haraldur hvað bakfærslan á yfirfærðu tapi nam á milli ára í fjárhæðum og hvað megi gera ráð fyrir að bakfærslan hafi lækkaði tekjuskatt lögaðila mikið. Hann vill jafnframt fá að vita með hvaða hætti ríkissjóður hafi tryggt innheimtu skatta sem voru lagðir á lögaðila í samræmi við dóminn.