Verðmæti bókfærðrar viðskiptavildar íslenskra úrvalsvístölufyrirtækja hefur vaxið hratt á undanförnum árum. Fram til þessa hafa þau lítt eða alls ekki þurft að færa hana niður.

Viðskiptavild og óefnislegar eignir félaganna í úrvalsvísitölu OMX á Íslandi, annarra en bankanna fjögurrra, nam liðlega 376 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs, sem var um 37 milljörðum króna meira en sem nam eigin fé þeirra samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins; hlutfall viðskiptavildar og óefnislegra eigna af eigin fé var því um 114% og 23,5% af heildareignum.

Tekið skal fram að þá er miðað við markaðs- en ekki bókfært verðmæti eignarhluta Existu í Kaupþingi og Sampo í lok mars og tekið mið af gengi íslensku krónunnar í lok mars. Af umræddum níu félögum voru aðeins tvö þeirra, Exista og Marel, með hærra eigið fé en sem nam bókfærðri viðskiptavild og óefnislegum eignum.

Áður en lengra er haldið skal sérstaklega áréttað að viðskiptavild eða aðrar óefnislegar eignir þurfa ekki að vera eða eru ekkert verri en margar aðrar eignir sem fyrirtæki færi til eignamegin í efnahagsreikningi sínum. Og það er heldur alls ekki séríslenskt fyrirbæri að viðskiptavild vegi umtalsvert í heildareignum fyrirtækja eða að hún sé hátt hlutfall af eigin fé þeirra.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .