Hard Rock hefur með virkum hætti að undanförnu leitað eftir samstarfsaðila til að sjá um rekstur veitingahúss staðarins á Íslandi, en líkt og sjá má á vefsíðu keðjunnar vill hún opna stað hér á landi. Þar er að finna kort sem sýnir þau lönd sem Hard Rock hefur áhuga á og er Ísland þar meðal efstu landa.

Hard Rock hefur sett sig í samband við aðila á Íslandi sem þó hafa ekki viljað þekkjast boðið, að því er fram kemur á mbl.is . Leit forsvarsmanna veitingastaðarins heldur því áfram.

Tómas Tómasson opnaði fyrst Hard Rock stað á Íslandi árið 1987, en hann segir í samtali við mbl.is að keðjan hafi ekki leitað til hans aftur. Félagið Gaumur keypti stað Tómasar árið 1999 og rak hann til ársins 2005, þegar honum var lokað.