*

miðvikudagur, 28. október 2020
Innlent 10. september 2019 12:13

Harðari samkeppni á nýbyggingarmarkaði

Lengri meðalsölutími og aukinn afláttur af ásettu verði nýrra íbúða er til marks um sterkari stöðu kaupenda á íbúðamarkaði.

Ritstjórn
Minni arðsemi og lengri sölutími benda til harðnandi samkeppni á markaði með nýbyggingar.
Haraldur Jónasson

Samkvæmt nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs hefur álagning nýbygginga lækkað umtalsvert undanfarin áratug. Á árunum 2006 til 2016 var verðálagning nýbygginga á bilinu 20-33% og þannig voru nýjar íbúðir fimmtungi til þriðjungi dýrari en aðrar byggingar. Á milli 20167 og 2017, þegar nýbyggingum tók að fjölga umtalsvert, lækkaði álagningin niður í 9% og lægst fór álagningin niður í 8% á síðasta ári en það sem af er ári 2019 hefur hún hækkað á ný er nú um 12%. 

„Verðálagningin á undanförnum þremur árum hefur því verið um helmingur af meðaltali síðustu tíu ára á undan. Arðsemi byggingarfyrirtækja af nýjum byggingum hefur sömuleiðis helmingast, sem gefur til kynna að samkeppni hafi aukist á fasteignamarkaðnum,“ segir í skýrslu Íbúðalánasjóðs. 

Fleiri vísbendingar eru um að samkeppni seljenda nýbygginga sé að aukast. Þannig hefur hlutfall nýrra íbúða sem seljast undir ásettu verði á höfuðborgarsvæðinu hefur rúmlega tvöfaldast síðastliðin tvö ár, úr 22% í júlí 2017 í 52% síðastliðinn júlí. Hins vegar hefur hlutfall gamalla íbúða haldist nokkuð stöðugt í 80% síðustu fimm árin. 

„Þessi þróun gefur til kynna að seljendur nýrra íbúða hafi þurft að láta undan þrýstingi frá kaupendum og gefa afslátt af íbúðum sínum í auknum mæli til þess að geta selt þær,“ segir í skýrslunni. 

Til viðbótar við minnkandi arðsemi nýbygginga og aukinn afslátt má af skýrslunni ráða að seljendur nýrra íbúða eru lengur að koma þeim út miðað við síðustu tvö ár. Meðalsölutími nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu lengst úr 129 dögum í júlí 2017 í 214 daga sl. júlí. Á sama tíma hefur meðalsölutími annarra íbúða haldist nokkurn veginn stöðugur í 70-90 dögum. 

„Lengri meðalsölutími og aukinn afsláttur af ásettu verði nýrra íbúða rennir enn frekari stoðum undir þá kenningu að samkeppnin hafi aukist á nýbyggingamarkaðnum. Þar sem nýjum íbúðum hefur fjölgað töluvert á síðustu árum hafa þeir sem vilja festa kaup á þeim úr meiru að velja. Þannig hefur reynst erfiðara að setja slíkar íbúðir á sölu, en seljendur nýbygginga hafa brugðist við þeirri þróun með því að bjóða eignir sínar á lægra verði, kaupendum í hag,“ segir ennfremur í mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs.