*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 13. desember 2017 15:37

Harðnandi tónn gæti þýtt hækkun vaxta

Bankarnir segja tóninn í Seðlabankanum fara harðnandi í anda vaxtahauka en aftur á móti harðni í ári hjá vaxtadúfum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Arion banka segir það vekja athygli að tónninn í Seðlabankanum í morgun þegar tilkynnt var um óbreytta stýrivexti væri nokkuð harðnandi en hann beinist að miklu leyti að opinberum fjármálum. Í fyrirsögn greiningarinnar segir að nú harðni í ári hjá vaxatdúfunum, en Greining Íslandsbanka segjast greina heldur meiri haukatón í Seðlabankanum í sinni greiningu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun kynnti Peningastefnunefnd Seðlabankans í morgun ákvörðun sína um að halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 4,25%, sem er í takt við væntingar flestra greiningaraðila, þó ekki Landsbankans sem spáði lækkun vaxta.

Ákvörðunin er fyrst og fremst rökstudd með kröftugum hagvexti og að litlar breytingar hafi orðið á gengi krónunnar og verðbólguvæntingum. Annars vegar þætti þeirra í meiri vexti innlendrar eftirspurnar en spáð hafði verið en einnig í framsýnu leiðsögninni sem segir berum orðum að slakara aðhald ríkisfjármála kalli á meira peningalegt aðhald en ella.

Aukin samneysla orsök vaxtastigsins

Íslandsbanki bendir á að á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina hafi Már Guðmundsson Seðlabankastjóri sagt að aukin umsvif opinbera geirans, þá bæði samneyslan og fjárfesting, hafi átt töluverðan hlut í því að hagvöxtur hefði verið umfram spár. 

Þó segist hann þar ekki eingöngu vera að vísa til ríkisfjármála heldur einnig til útgjalda sveitarfélaga og fyrirtækja sem rekin eru fyrir opinberar álögur.

Þannig mun niðurstaða fjárlaga hafa áhrif á hvað nefndin gerir þegar hún hittist næst 7. febrúar og leggur Íslandsbanki út frá því að það muni leggjast illa í peningastefnunefnd við næstu vaxtaákvarðanir ef minni afgangur verður á fjárlagafrumvarpinu en upphaflega var áætlað.

Fjölgun ferðamanna langt undir spám

Þó að stóra myndin í efnahagsþróuninni hafi lítið breyst síðustu vikur þykir greiningardeild Arion banka svo ástæða til að fjalla um og benda á að ferðamönnum hefur ekki fjölgað jafn lítið í sjö ár og er fjölgun þeirra í nóvember langt undir spá ISAVIA. 

Útlit sé því fyrir að mun hægari vöxtur sé framundan í ferðaþjónustu sem mun vafalítið móta peningastefnuna á nýju ári. Íslandsbanki segir svo að ef samspil minna aðhalds í ríkisfjármálum, aukins óróa á vinnumarkaði og eða veikingar krónunnar geti það orðið til þess að stýrivextir hækki á komandi misserum, þó enn sé bankinn á því að það sé ólíklegra en hitt að vextir haldist óbreyttir. 

Hins vegar ef kólni á íbúðamarkaði eða ef krónan færi að styrkjast á ný sé mögulegt að stýrivextir verði lækkaðir, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um spá SA því að húsnæðisskorturinn verði viðvarandi næstu þrjú árin.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is