Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er harðorð í garð Sveitarfélagsins Voga og Skipulagsstofnunar en nefndin felldi nýverið úr gildi ákvörðun þeirra um að Suðurnesjalína 2 skuli lögð í jörð innan sveitarfélagsins.

Í úrskurðinum er þess meðal annars getið að rökstuðningi Voga hafi verið ábótavant og að sveitarfélagið hafi ekki gætt nægilega að þeirri skyldu sinni að sinna almannahagsmunum. Þá fékk Skipulagsstofnun pillu fyrir að hafa meðal annars ekki litið nægilega til umsagnar Umhverfisstofnunar.

Lagning umræddrar línu hefur verið nokkur þrautaganga en hún hefur verið á dagskrá í rúman áratug og tvívegis hafa framkvæmdaleyfi verið felld úr gildi með dómum Hæstaréttar. Úrskurðir voru kveðnir upp sama dag í þremur málum, sem vörðuðu lagningu línunnar í lofti gegnum sveitarfélögin Grindavík, Reykjanesbæ og Hafnarfjörð, en þar var hafnað að ógilda útgefin framkvæmdaleyfi.