„Það liggur fyrir að umtalsverð gjaldskrárhækkun á pakkasendingum innanlands sem tók gildi í janúar 2020 var ákveðin án umfjöllunar í stjórn og án heimildar stjórnar Íslandspósts eins og kveðið er á um í samþykktum félagsins.“ Svo segir í bókun minnihluta stjórnar Íslandspósts ohf. (ÍSP) á stjórnarfundi undir lok síðasta árs. Viðskiptablaðið fékk í dag afhentar fundargerðir stjórnar Póstsins fram að aðalfundi félagsins í mars á þessu ári.

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu undir lok síðasta árs að fundir stjórnenda með ráðherrum hafi hjálpað til við að leysa þann hnút sem upp var kominn vegna skyldu Póstsins til að sinna alþjónustu. Fyrir þá byrði ber félaginu lögum samkvæmt að fá greiðslur úr ríkissjóði, ýmist samkvæmt samningi eða samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS).

Samningar náðust ekki og undir lok árs 2019 funduðu Bjarni Jónsson, stjórnarformaður, og Birgir Jónsson, þáverandi forstjóri, með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Bjarni og varaformaður stjórnar, Auður Björk Guðmundsdóttir, með Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Samkvæmt því sem fært var til bókar í stjórnarfundargerð tjáði fjármálaráðherra að ÍSP gæti fært 490 milljónir króna í áætlanir sínar vegna þessa. Endanlegt framlag vegna ársins í fyrra varð 509 milljónir króna.

Hluti þess var tilkominn vegna ákvæðis í nýjum lögum um póstþjónustu sem kveður á um að sama verð skuli vera á alþjónustu um allt land. Brugðist var við því með því að lækka gjaldskrá á landsbyggðinni, í sumum tilfellum um tugi prósenta, niður á verðið sem var í gildi á höfuðborgarsvæðinu. Það er sú gjaldskrárlækkun sem stjórnarmennirnir tveir bókuðu um á fundi í desember í fyrra.

„Ofangreind gjaldskrárlækkun frá janúar 2020 hefur leitt til mjög mikils tekjutaps hjá ÍSP á árinu 2020 og valdið röskun á samkeppnisstöðu einkarekinna fyrirtækja í innanlandsflutningu og smásöluverslun á landsbyggðinni. Fram hafa komið sjónarmið og vísbendingar um að ákvörðunin kunni hugsanlega að ganga gegn ákvæðum póstlaga og samkeppnislaga. Tilkynna ber samkeppnisyfirvöldum um það sjónarmið umsvifalaust,“ segir í bókuninni.

Bjarni vildi skipta fulltrúa Framsóknar út

Að henni standa stjórnarmennirnir Thomas Möller, tilnefndur af Viðreisn, og Eiríkur Haukur Hauksson, tilnefndur af Framsóknarflokknum. Síðasti stjórnarmaðurinn er Jónína Björk Óskarsdóttir, tilnefnd af Flokki fólksins, en í upphafi árs myndaði hún meirihluta stjórnar með fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.

„Við teljum ljóst að tap hafi verið af þessari starfsemi áður en gripið var til gjaldskrárlækkunarinnar í janúar 2020. Með því að lækka gjaldið enn frekar, um tugi prósenta, er fyrirsjáanlegt að tap verði af pakkasendingum innanlands á árinu 2020. Teljum við einsýnt að gjaldskráin sé andstæð lögum um póstþjónustu,“ segir í bókuninni. Þar segir enn fremur að PFS hafi „varað við fyrirsjáanlegu tekjutapi ÍSP á pökkum innanlands á árinu 2020.“

Sú hefði eflaust orðið raunin ef ekki hefði komið til heimsfaraldursins en hann reyndist að einhverju leyti guðsgjöf fyrir Póstinn. Hefðbundin verslun færðist að mörgu leyti yfir á netið og varð því umtalsverð aukning í pakkasendingum.

Rétt er að geta þess að fyrrnefndur Thomas var ekki kjörinn í stjórn Póstsins á nýjan leik á aðalfundi félagsins nú í ár. Þessi í stað ákvað fjármálaráðherra að skipa starfsmann ráðuneytisins í stjórn. Heimildir blaðsins herma að fjármálaráðherra hafi lagt mjög hart að Viðreisn og Framsóknarflokki að skipa „þægari“ stjórnarmenn. Þegar ekki hafi verið orðið við því hafi hann hent fulltrúa Viðreisnar út. Stjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn hafi hins vegar staðið því í vegi að Eiríkur Haukur fengi sömu meðferð.