*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 9. mars 2021 11:48

Harðorðir í garð MS

Fyrrum samkeppnisaðilar gagnrýna MS harðlega í kjölfar staðfestingar Hæstaréttar á 480 milljóna sekt vegna samkeppnisbrota.

Ritstjórn
Kristinn Ingvarsson

Fyrrum stjórnendur og eigendur Mjólku og Mjólkurbúsins Kú fagna niðurstöðu Hæstaréttar er 480 milljóna sekt á hendur Mjólkursamsölunni vegna samkeppnislagabrota var staðfest. 

Í fréttatilkynningunni þeirra er sagt að aðgerðir MS hafi verið þaulskipulagðar og þeim ætlað að koma keppinautum MS út af markaði og gera þá ógjaldfæra með alvarlegum afleiðingum fyrir starfsfólk þeirra, lánadrottna og eigendur. „Kalla verður eftir ábyrgð þeirra sem stýrðu þessari aðför með svo illgjörnum og óvægnum hætti.“

Er vísað til dóms Hæstaréttar þar sem segir meðal annars:

Hæstiréttur taldi ekki undirorpið neinum vafa að MS ehf hafi verið í markaðsráðandi stöðu á viðkomandi markaði. Félagið hefði selt hrámjólk til tengdra aðila á mun lægra verði en ótengdum aðilum og sú mismunun hafi veitt hinum tengdu aðilum óeðlilegt forskot í samkeppni á markaði málsins. MS ehf var því talið hafa mismunað viðskiptaaðilum sínum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og þannig veikt samkeppnisstöðu þeirra og með því brotið með alvarlegum hætti gegn c-lið 2.mgr. 11.gr. samkeppnislaga."

Hæstiréttur taldi jafnframt að MS ehf. hefði brotið gegn 19 gr. samkeppnislaga með því að leggja ekki fram áðurnefnt samkomulag sitt við Kaupfélag Skagfirðinga við rannsókn Samkeppniseftirlitsins."

Hvað varðar fjárhæð stjórnvaldssektarinnar vísaði Hæstiréttur til þess að brot MS ehf. hafi verið alvarlegt auk þess sem það hafið staðið lengi."

Yfirlýsingar MS um góða trú „í besta falli hlægilegar“

„Það er okkur, fyrrum forsvarsmönnum og eigendum Mjólku og Mjólkurbúsins Kú, mikils virði að fá þessa niðurstöðu eftir 16 ára erfiða og óvægna baráttu. Í dómnum felst viðurkenning á einbeittum og óvægnum brotavilja MS sem beint var að fyrirtækjum okkar og fór alvarlega gegn samkeppnislögum. Ábyrgð stjórnar og stjórnenda MS er mikil og framganga þeirra hafði alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki okkar, fjölskyldur og síðast en ekki síst skaðleg áhrif á hagsmuni neytenda og bænda,“ segir í tilkynningunni.

Í dómi Hæstaréttar komi einnig fram: „Hefði áfrýjandi (MS) þurft að greiða sama verð og Mjólkurbúið KÚ ehf fyrir hrámjólk til eigin vinnslu hefði rekstur hans skilað umtalsverðu tapi."

Því séu yfirlýsingar MS um að aðgerðir þeirra hafi verið gerðar í góðri trú „í besta falli hlægilegar“.

Meint hagræðing sem á að hafa náðst vegna undanþáguákvæða frá samkeppnislögum hafi ekki skilað sér í vasa neytenda og því síður til bænda.

„Verð á mjólkurvörum er síst lægra hér landi en á erlendum mörkuðum þar sem fyrirtæki bænda hafa ekki notið þeirrar gríðarlegu verndar sem MS hefur notið á undanförnum árum með tollavernd og undanþáguheimildum frá samkeppnislögum, í raun einokunarstöðu.

MS, sem er eitt þýðingar mesta afurðasölufélag bænda og flaggskip þeirra í áratugi, stendur eftir stór laskað, orðspor þess og traust hefur orðið fyrir miklum skaða, allt lausafé uppurið og félagið því glímt við lausafjárvanda um nokkurra ára skeið.

Eftir standa því bændur með fyrirtæki sitt rúið trausti og ekki í stakkbúið að mæta aukinni samkeppni. Ábyrgð stjórnar og stjórnenda MS er því mikil og skulda þeir bændum skýringar á framgöngu sinni,“ segir í tilkynningu fyrrum stjórnenda og eigenda Mjólku og Mjólkurbúsins Kú.

Því megi segja að stjórnendur MS hafi „litið á það sem heimild sér til handa með undanþáguheimildir frá samkeppnislögum uppá vasann frá stjórnvöldum, að þeir gætu brotið með alvarlegum og ítrekuðum hætti á keppinautum sínum án afleiðinga.“ Stjórnendur MS staðfesti það í raun með yfirlýsingu sinni í kjölfar dómsins að þeir hafið litið svo á.

Fella þurfi út undanþáguheimildir frá samkeppnislögum

Nauðsynlega þurfi að fella þegar í stað þessar undanþáguheimildir frá samkeppnislögum úr gildi. Með engu móti megi innleiða þær í aðrar greinar eins t.d. í kjötframleiðslu.

„Ábyrgð stjórnvalda í þessu máli er mikil þar sem undanþáguheimildir frá samkeppnislögum er ástæða þess, að sögn stjórnenda MS, að þeir brutu samkeppnislög með svo alvarlegum hætti gagnvart keppinautum sínum „í góðri trú".

Farið hefði betur á því hjá stjórnendum MS að biðjast afsökunnar á framgöngu sinni gagnvart íslenskum neytendum og þeim sem þeir brutu alvarlega á, í stað þess að reyna enn og aftur að slá ryki í augu á almennings með yfirlýsingu um „meint hagræði",“ segir að lokum í fréttatilkynningu fyrrum stjórnenda og eigenda Mjólku og Mjólkurbúsins Kú.