Landssamband veiðifélaga lítur svo á að stjórnvöld hafi árið 1988 skuldbundið sig til að banna eldi norskra laxa í sjókvíum við Ísland. Þetta kemur fram í bréfi sem sambandið sendi Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í vikunni. Í bréfinu er vísað í niðurstöðu nefndar sem skipuð var árið 1988 og hafði það hlutverk að setja reglur um dreifingu norskra laxastofna hér á landi. Enn fremur er tekið fram í bréfinu að sambandið hafi falið lögmanni sínum að skoða réttarstöðu veiðiréttareigenda, á grundvelli samkomulagsins sem gert var 1988, „og leita eftir atvikum atbeina dómstóla í því sambandi".

„Nefndin skilaði áliti ásamt reglum í byrjun október 1988, sem stjórnvöld og allir hagsmunaaðilar samþykktu með undirritun sinni," segir í bréfi Landssambands veiðifélaga, sem undirritað er af Óðni Sigþórssyni formanni sambandsins. „Meginniðurstaðan var sú að eldi innfluttra laxastofan skyldi eingöngu heimilt í strandeldisstöðvum, sem hefðu frárennsli beint í sjó. Óheimilt væri með öllu að ala norska eldislaxinn í sjókvíum við Ísland.  Þannig var stefnt að því að ekki blandist erlent erfðaefni úr norskum eldisstofnun í villta laxastofna hér á landi."

100 kílómetrar í Laxá í Aðaldal

Bréfið er sent vegna áforma um að hefja sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði. Landssambandið krefst þess að þessum fjörðum verið lokað fyrir eldi á frjóum laxi af norskum uppruna. Óðinn flutti erindi um þetta mál á málstofu um stangaveiði og náttúruvernd í Háskólabíói í gær. Þar benti hann meðal annars á að ekki væru nema ríflega 100 kílómetrar frá Eyjafirði og að ósum Laxár í Aðaldal. Laxá er ein rómaðasta laxveiðiá landsins og þar er hlutfall stórlaxa líklega það hæsta á landinu.

„Ljóst er að erfðablöndun getur valdið varanlegum og óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra laxastofna og þar með spillt líffræðilegum og efnahagslegum verðmætum," segir í bréfinu. „Norski eldislaxinn er að erfðum mjög fjarskyldur íslenskum laxastofnum, Erfðanefnd landbúnaðarins metur sem framandi stofn í íslenskri náttúru."

Umhverfisslys

Þá bendir Landssamband veiðifélaga á að þegar hafi orðið umhverfisslys vegna sjókvíaeldis „nú síðast í Patreksfirði haustið 2013 og skilaði sá lax sér kynþroska úr hafi í miklum mæli síðastliðið haust."

Íslenskir laxveiðimenn hafa löngum haft áhyggjur af laxeldi í sjókvíum við Ísland og innflutningi norskra seiða. Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna (NASF), hefur til að mynda barist gegn þessu í tugi ára. Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrverandi formaður veiðifélags Grímsár og Tunguár og oft kenndur við Skálpastaði, ritaði árið 2002 grein í Morgunblaðið um eldi norskra laxa í sjókvíum við Ísland. Í greininni sagði hann innflutning norskra laxaseiða skýlaust brot á lögum. Grein Þorsteins má lesa hér og bréf Landssambands veiðifélaga hér .