Ögmundi Jónassyni, fyrrverandi þingmaður VG og fyrrum Innanríkisráðherra lýst hörmulega á nýju ríkisstjórnina.

„Enda erum við búin að fá sennilega harðsvíruðustu hægristjórn sem hér hefur sést,“ segir Ögmundur í samtali við Viðskiptablaðið spurður út í hvernig honum lítist á nýja ríkisstjórn.

„Stjórnarmyndunarviðræðurnar voru fyrst og fremst viðræður milli fyrrverandi og núverandi forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem með þessari stjórnarmyndun hafa ákveðið að leggja deilur um Evrópusambandið til hliðar og sameinast um framgang markaðshyggjunnar.

Yfirlýsing um einkaframkvæmd og einkavæðingu

Þau gera fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnurekenda að félagsmálaráðherra sem að segir sýna sögu og ef við þýðum stjórnarsáttmálann yfir á mannamál, þá öllum ljóst vera að hann er fyrst og fremst yfirlýsing um einkaframkvæmd og einkavæðingu.

Nú verða margir sem hugsa gott til glóðarinnar um að geta farið að græða á vegakerfinu og á innviðum samfélagsins, vegna þess að pólítíkin snýst ekki fyrst og fremst um hversu miklir fjármunir skattgreiðenda eru reiddir fram, heldur hvernig þeir eru notaðir.

Mun ekki þjóna hagsmunum almennings

Þessi mannsskapur mun fyrst og fremst reyna að sjá til þess að það verði gert á markaðsforsendum, sem að mun þjóna hagsmunum einhverra en ekki almennings.

Þannig að ég er ekkert sérstaklega upprifinn yfir því sem nú er að gerast.“

Heldur fund um TTIP, CETA og TPP

Ögmundi er umhugað um stöðu verslunarmála í heiminum, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um , þá stefnir nýr utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, að nýta þau tækifæri sem þar bjóðist.

„Reyndar nálgast menn þau mál og þessa alþjóðlegu viðskiptasamninga frá mismunandi forsendum,“ segir Ögmundur sem heldur fund um umdeilda fjölþjóðlega samninga eins og TTIP, CETA og TPP.

„Við heyrum að Donald Trump hefur efasemdir um samninga yfir Atlantshafið og Kyrrahafið sem hafa verið í bígerð, og við þeir samningar og aðrir sem hafa verið á vinnsluborðinu alþjóðlega skipta okkur máli og koma okkur öllum við.

Fundur í Iðnó í hádeginu á laugardag

Af þeim sökum hef ég ákveðið að efna til opins fundar í Iðnó á laugardaginn klukkan 12, þetta verður stuttur snarpur klukkutíma fundur, þar sem farið verður yfir þessa alþjóðlegu samninga.

Auðvitað er margt gott að segja um fjölþjóðleg viðskipti og ég er ekki að andmæla þeim, nema síður sé, en ég er hins vegar að vara við andvaraleysi, þegar að kemur að þessum samningum sem helst hafa verið í brennidepli að undanförnu, TPP, TTIP og CETA samningarnir.“

Öndverðu meiði við Daniel Hannan

Ögmundur virðist vera á öndverðu meiði við Daniel Hannan, Evrópuþingmann breska Íhaldsflokksins sem Viðskiptablaðið ræddi við fyrir Áramót, þar sem hann lagði áherslu á að einfaldir fríverslunarsamningar myndu tryggja hagsmuni almennings gegn stórfyrirtækjum.

„Gagnrýnin hefur vissulega verið á þá lund að þetta séu fyrst og fremst stórfyrirtækjasamningar,“ segir Ögmundur og tekur að því leitinu til undir með Daniel en lausn hans virðist vera þveröfug.

Ef samræmt regluverk væri ekkert við þá að athuga

„Ef að tækifæri væri notað til þess að samræma regluverkið sem að umlykur viðskiptin uppávið, til að verja hag neytenda, og samfélagsins þá væri ekkert við þá að athuga.

En gagnrýnin hún snýr að því að þetta gangi allt í gagnstæða átt. Ef það á ekki að gerast, þá þurfa samfélögin og almenningur að vera mjög vel vakandi yfir eigin hagsmunum, það er markmið mitt með þessum fundi.

Kröfur varðandi umhverfið, lyf og neytendamál

Hvað varðar umhverfið, hvað varðar lyf til dæmis og hvaða kröfur gerum við til lyfjaframleiðenda, hvaða kröfur gerum við hvað varðar umhverfið, mengunarvalda og annað af því tagi.

Gagnrýni Evrópu hefur verið á þá lund að regluverkið almennt séð í Bandaríkjunum sé lakara hvað þessa þætti til dæmis áhrærir heldur en í Evrópu, og ef að Evrópa samræmir sig þarna gagnvart Bandaríkjunum, þá sé verið að lækka öryggiskvarða og varnir almennings.

Verum meðvituð um hvað er að gerast, verum meðvituð um réttindi okkar og á hvern hátt þessir samningar koma okkur við.“

Til að skerpa á umræðunni

Ögmundur segir að á fundinum verði hann sjálfur og Drífa Snædal sem verði fundarstýra.

„Ég er með erindi, en síðan verður möguleiki á viðbrögðum, kommentum úr sal, en þetta er fyrst og fremst hugsað sem innspýting og til þess að skerpa á þessari umræðu.“