*

miðvikudagur, 25. nóvember 2020
Innlent 19. júní 2016 17:02

Harka í samningum

Forstjóri Landsvirkjunar segir að forsvarsmenn stóriðjunnar hafi mjög markvisst talað sæstrenginn niður.

Trausti Hafliðason
Kristinn Magnússon

Árið 2011 gerði Landsvirkjun nýjan samning við Rio Tinto Alcan í Straumsvík og var það fyrsti samningurinn þar sem álverðstengingin var tekin út.

„Síðan vorum við að ljúka núna samningum við Norðurál," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Þeir eru núna í yfirlestri hjá ESA og það mun vonandi klárast á næstu vikum. Það er mjög ánægjulegt að sá samningur er í takti við sambærilega samninga á Nord Pool-markaðnum á Norðurlöndunum. Það var eitthvað sem margir héldu að væri ekki hægt. Að við myndum þurfa sæstreng til að geta samið um sambærileg verð en við erum að sýna núna að við getum þetta enda skilgreinum við okkur á sama markaðssvæði. Samningurinn við Norðurál mun taka gildi árið 2019. Samningurinn við Elkem rennur líka út árið 2019 og þær samningaviðræður eru að hefjast."

Töluverð harka hefur verið í samningunum við Norðurál enda miklir hagsmunir í húfi. Spurður hvernig viðræðurnar hafi gengið svarar Hörður: Þær hafa gengið eins og samningaviðræður milli alþjóðlegra fyrirtækja ganga. Þegar verið er að tala um tug- jafnvel hundruð milljarða hagsmuni er eðlilegt að hart sé tekist á. Við kveinkum okkur ekki undan því. Það er hlutverk starfsmanna beggja fyrirtækja að gæta hagsmuna sinna eigenda. Viðsemjendur okkar gæta hagsmuna sinna af mikilli festu og samningamenn oft með háar launatengingar, árangurstengda bónusa, til að tryggja góða samninga. Hvað Norðurál varðar þá flækti það málið að núverandi samningar eru gamlir og barn síns tíma. Það var því óhjákvæmilegt að semja um umtalsverðar hækkanir. Þá hafa markaðsaðstæður verið erfiðar og það hjálpaði ekki til. Í öllu þessu ferli höfum við haft mjög skýran stuðning stjórnar Landsvirkjunar, sem og stjórnvalda, bæði núverandi ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna."

Sæstrengur til Evrópu hefur verið í umræðunni um langt árabil. Þær fyrirætlanir hafa meðal annars verið harðlega gagnrýndar af forsvarsmönnum stóriðjunnar.

„Þeir hafa mjög markvisst talað sæstrenginn niður og hafa fullan rétt á því. Það er aftur á móti mjög mikilvægt að skilja þegar menn eru að tala út frá þröngum sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum. Það er mikilvægt að þeir sem gagnrýna komi til dyranna eins og þeir eru klæddir en séu ekki að villa á sér heimildir."

Nánar er rætt við Hörð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.