Bandaríski mótorhjólaframleiðandinn Harley Davidson ætlar að innkalla alls um 308.000 mótorhjól vegna galla í bremsuljósi aftan á hjólunum. Er ljósið of líklegt til að hitna um of vegna nálægðar við pústkerfi hjólanna. Vegna þessa getur það komið fyrir að ekki kvikni á ljósinu þegar hjólreiðamaðurinn bremsar og eins getur kviknað á ljósinu án þess að gripið sé í bremsuna.

Um er að ræða Touring og Trike módel af árgerðunum 2009-2012 og verða um 250.000 hjól innkölluð í Bandaríkjunum og um 50.000 í öðrum löndum. Kostnaður vegna innköllunarinnar er áætlaður um 10-12 milljónir dala, eða um 1,15-1,37 milljarða króna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Harley Davidson innkallar mótorhjól, en árið 2009 voru um 140.000 hjól innkölluð vegna galla í eldsneytistanki.