Mótorhjólaframleiðandinn Harley-Davidson neyðist til að borga bandarískum yfirvöldum 12 milljónir Bandaríkjadala, vegna þess að hjólin þeirra menguðu andrúmsloftið meira en leyfilegt var samkvæmt umhverfislöggjöf.

Enn fremur hefur þeim verið skipað til að hætta sölu á tækjum sem eru gerð til að auka kraft hjólanna vegna mengunar sem stafi af þessum græjum.

Á vef BBC kemur fram að forsvarsmenn fyrirtækisins vona að sættirnar sýni samstarfsvilja í verki.

Harley-Davidson er eitt mýmargra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir barðinu á loftslagslöggjöfinni Clean Air Act og telur bandaríska dómsmálaráðuneytið þetta mál vera fordæmisgefandi vegna stöðu Harley-Davidson á markaðnum.