Gengi bréfa Harley Davidson mótorhjólaframleiðandans hefur lækkað um 1,3% það sem af er degi í kauphöllinni í New York og kemur það ofan á töluverða lækkun í gær. Ástæðan er sú að uppgjör fyrirtækisins fyrir annan ársfjórðung olli töluverðum vonbrigðum, einkum vegna dvínandi mótorhjólasölu í Evrópu. Þar seldust aðeins 14.639 hjól, sem er lækkun upp á 9% frá sama tímabili í fyrra. Í Bandaríkjunum jókst hjólasalan um 4% frá fyrra ári, en það er samt mun minni aukning en varð á fyrsta fjórðungi, þegar salan jókst um 25% frá árinu á undan.

Velta á öðrum ársfjórðungi jókst um 17% milli ára og nam 1,57 milljarði dala, en það var töluvert undir væntingum. Hagnaður fyrirtækisins jókst þó um 30% og nam 247,3 milljónum dala, sem var eilítið yfir væntingum sérfræðinga.

Á þriðja ársfjórðungi gerir fyrirtækið ráð fyrir því að selja á bilinu 51.000 til 56.000 hjól, sem er 9%-17% minni sala en á sama tíma í fyrra, en ástæðan er m.a. breytingar á einni verksmiðju fyrirtækisins. frá 25. apríl á þessu ári hefur gengi bréfa fyrirtækisins lækkað um ein 23%.