Mótorhjólaframleiðandinn Harley-Davidson ætlar að hætta að herja inn á stærsta mótórhjólamarkað heims, þann indverska, vegna hárra skatta. Ætlar mótorhjólaframleiðandinn að hætta að framleiða mótorhjól og skala verulega niður sölustarfsemi í landinu. BBC greinir frá.

Ekki er langt síðan Toyota greindi frá því að fyrirtækið ætlaði sér að draga saman seglin í Indlandi af sömu ástæðu.

Brotthvarf verksmiðju Harley-Davidson frá Indlandi er sagt vera áfall fyrir Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, en hann hefur lagt áherslu á að halda verksmiðjum alþjóðlegra fyrirtækja í landinu, auk þess að reyna að fá fleiri fyrirtæki til að reisa verksmiðjur í landinu.

Verksmiðja Harley-Davidson í Indlandi var opnuð árið 2011 en fyrirtækið hefur orðið undir í samkeppni við indverska mótorhjólaframleiðandann Hero og japanska framleiðandann Honda. Um 17 milljónir mótorhjóla og skellinaðra eru seldar ár hvert í Indlandi.