Framkvæmdastjórn Landssambands sjálfstæðiskvenna harmar það hversu hlutur kvenna í efstu sætunum á framboðslista flokksins í Reykjavík er rýr ef niðurstaða prófkjörsins verður látin standa.

Stjórn sambandsins skorar á kjörnefnd að nýta sér það svigrúm sem hún hefur til breytinga á uppröðun frambjóðenda. Það sé mikilvægt að konur veljist til áhrifa ekki síður en karlar og með þrjá karla í efstu sætunum sé ekki hægt að halda því fram að konur muni hafa þar áhrif.

„Til þess að ná því markmiði að geta horft björtum augum til framtíðar undir traustri stjórn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík - þurfa að vera fulltrúar beggja kynja í áhrifastöðum,“ segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni.