Í sameiginlegri yfirlýsingu Icelandair, Samtaka atvinnulífsins, Flugfreyjufélags Íslands og Alþýðusambands Íslands er uppsögn á flugfreyjum og flugþjónum félagsins þann 17. júlí, á meðan kjaraviðræður stóðu yfir, hörmuð. Uppsögnin hafi ekki verið „í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa,“ segir í yfirlýsingunni.

Icelandair telji „nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns sem tryggir frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum.“

Icelandair sagði í sumar upp öllum félagsmönnum Flugfreyjufélagsins eftir að flugfreyjur felldu kjarasamning við félagið. Icelandair boðaði jafnframt að flugmenn myndu tímabundið sinna öryggishlutverki um borð í flugvélum. Tveimur dögum síðar, eða þann 19. júlí, náðu Icelandair og Flugfreyjufélagið saman á ný um kjarasamning sem var samþykktur af félagsmönnum.

Tímasetning yfirlýsingarinnar hefur verið tengd við hlutafjárútboð Icelandair sem lýkur í dag en óánægja er innan verkalýðshreyfingarinnar með framgöngu Icelandair í kjaraviðræðunum. Stjórnir lífeyrissjóða eru að nokkrum hluta skipaðar fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og hefur verið velt vöngum yfir hvort það kunni að hafa áhrif á þátttöku sjóðanna í útboðinu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur til að mynda lagst gegn því að Gildi lífeyrissjóður taki þátt í útboðinu . Sólveig Anna situr í stjórn fulltrúaráðs Gildis og Stefán Ólafsson prófessor, er formaður stjórnar Gildis og jafnframt efnahagsráðgjafi Eflingar.

Yfirlýsing Icelandair, SA, FFÍ og ASÍ í heild sinni:

Aðilar eru sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í erfiðum og langdregnum kjaradeilum eigi að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðar og sem koma fram í lögum nr. 80/1938.

Þau viðbrögð Icelandair, með stuðningi SA, þegar félagið taldi vonlaust að ná árangri í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands, að segja upp öllum starfandi flugfreyjum og flugþjónum þann 17.7.2020  eru hörmuð enda ekki í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa. Icelandair telur nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns sem tryggir frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum.

Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín í milli.

Með yfirlýsingu þessari eru aðilar sammála um að með henni ljúki öllum deilum milli þeirra um þá atburði sem áttu sér stað í samskiptum þeirra þann 17.7 2020 og mun hvorugur aðila gera kröfur á hinn vegna þeirra.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands