Byggðarráð Norðurþings hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fjallað er um úrskurð umhverfisráðherra um að gera skuli sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna álvers á Bakka.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

„Um úrskurð vegna kæru Landverndar 18. mars 2008

Byggðarráð Norðurþings harmar úrskurð umhverfisráðherra um að fram fari sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fjögurra framkvæmda vegna álvers á Bakka. Úrskurður þessi er þvert á niðurstöðu Skipulagsstofnunar og gegn vilja sveitarfélagsins.

Skipulagsstofnun hafði staðfest að ekki væri þörf á sameiginlegu mati enda gæfi slíkt mat á engan hátt betri yfirsýn yfir áhrif framkvæmdanna.

Það kemur einnig á óvart að ráðherra hefur nýlega úrskurðað á þveröfugan hátt vegna álvers í Helguvík. Það alvarlega við úrskurð ráðherra er að ekkert samráð var haft við heimamenn þ.e. hvorki var leitað upplýsinga eða gagna til að styrkja úrskurðinn.

Ljóst er að ef ekki verður fundin lausn á næstu vikum mun úrskurðurinn leiða til frestunar á framkvæmdum vegna álvers á Bakka um það minnsta ár. Slíkt mun hafa mikil neikvæð áhrif á rekstrar- og fjárhagsstöðu sveitarfélagsins Norðurþings.

Það er von byggðarráðs Norðurþings að farsæl lausn muni finnast í þessu mikilvæga máli á næstu dögum. Taka þarf af öll tvímæli um að hægt verði að halda áfram rannsóknarborunum á Þeistareykjum og í Kröflu næsta sumar. Enda er slíkt forsenda þess að hægt verði að ljúka öllum nauðsynlegum samningum vegna fyrirhugaðar stóriðju á haustdögum 2009.“