Samgöngubætur eru ólíkar og skipta oft marga frekar litlu máli á meðan aðrar samgöngubætur skipta mjög miklu máli, en fyrir frekar fáa. Þetta sagði Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri og stjórnarformaður Byggðastofnunar. Þetta kom fram í máli hans á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga um samgöngumál sem haldinn er í Hofi á Akureyri.

Þóroddur tók Héðinsfjarðargöng sem dæmi þar sem kostnaður nam rúmum 14 milljörðum. Ef eingöngu væri horft til íbúa Siglufjarðar, sem eru um 1.200 manns, þá væri kostnaður á hvern íbúa 11,9 milljónir á mann. Hinsvegar nytu fleiri góðs af göngunum og í heildina væri kostnaður 45 þúsund á mann.

Ef þetta væri borið saman við kostnað við tónlistarhúsið Hörpu sem nam 27,7 milljörðum og íbúa í póstnúmeri 101 þá væri kostnaðurinn 1,8 milljónir á mann. Ef horft væri til allra landsmanna væri kostnaðurinn 87 þúsund á mann.