Hörð gagnrýni hefur komið fram vegna 33% launahækkunar stjórnarmanna HB Granda sem samþykkt var á aðalfundi fyrirtækisins fyrir skemmstu. Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa hækkunina er stéttarfélagið Efling sem segir hana bæði taktlausa og siðlausa.

Lífeyrissjóðurinn Gildi er fjórði stærsti hluthafi HB Granda. Stjórnarformaður Gildis er Harpa Ólafsdóttir, en hún er jafnframt sviðsstjóri kjaramála hjá Eflingu. Lífeyrissjóðurinn samþykkti tillögu um launahækkun stjórnarmannanna á fundinum.

„Það er ekki þannig að ég mæti persónulega í HB Granda og greiði atkvæði með þessu. Við höfum markað okkar hluthafastefnu sem er alveg skýr varðandi það að við eigum að skoða hvernig starfskjarastefnur eru og það sé ekki farið út fyrir ákveðinn ramma. Það sem okkar starfsmenn gerðu þarna var að skoða laun stjórnarmanna almennt í Kauphöllinni, og sáu að þessi tillaga var í samræmi við þau. Aldrei var nein hækkun kynnt á þessum fundi,“ segir Harpa í samtali við Viðskiptablaðið.

Alltaf gott að vera vitur eftir á

Spurð hvort hún sé andsnúin launabreytingunni segist Harpa vera það þegar hún sé kynnt sem hækkun. „En eitt er hvort við förum fram og segjum að eitt fyrirtæki eigi að vera með mun lægri stjórnarlaun en annað; við þurfum að horfa á þetta í víðara samhengi. Þetta er náttúrlega klárlega galinn tímapunktur til að ná fram einhverri leiðréttingu. Mér finnst eðlilegt að það sé samræmi þarna á milli, og að gera þetta á þessum tímapunkti er kolrangt,“ segir hún.

Harpa segir framkvæmdastjóra Gildis, sem greiddi atkvæði fyrir hönd sjóðsins á fundinum, ekki hafa áttað sig á að um hefði verið að ræða hækkun upp á 50 þúsund krónur. „Það er alltaf gott að vera vitur eftir á. Ég hefði mátt gefa skýrari fyrirmæli um þetta,“ segir Harpa.