Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að fjármögnun á starfsemi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu fæli í sér ríkisaðstoð sem þó samræmdist EES samningnum. ESA hefur haft málið til athugunar frá því síðla árs 2011 þegar stofnuninni barst kvörtun frá  samkeppnisaðila.

Harpa gerði stofnuninni grein fyrir sínu rekstrarfyrirkomulagi í byrjun sumars, og lagði áherslu á bókhaldslegan aðskilnað deilda fyrirtækisins og þá skýru stefnu að ráðstefnu- og fundahald í Hörpu ætti að skila arði og greiða sinn hluta af sameiginlegum rekstrarkostnaði hússins. Í tilkynningu frá ESA, segir að niðurstaða eftirlitsstofnunarinnar sé sú að fjármögnun á starfsemi Hörpu samræmdist ríkisstyrkjareglum EES samningsins.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, fagnar þessari ákvörðun í tilkynningu sem hann sendi frá sér. Hann bendir á að með þessu sé allri óvissu um einn mikilvægasta þáttinn í rekstri Hörpu eytt og að það styrki alla starfsemi hússins: „Á þessu ári hafa tekjur ráðstefnusviðs Hörpu aukist um tæp 50% og við munum nú halda þeirri sókn áfram af fullum krafti,“ segir hann.