Kostnaður af endursmíði gallaðs glerburðarvirkis á suðurvegg Hörpu mun miðað við útboðsgögn lenda á kínverskum undirverktökum ÍAV. Heildarkostnaður við glerhjúpinn mun samsvara verði á um 150 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Heildarkostnaður glerhjúps Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu er samkvæmt upplýsingum Stefáns Hermannssonar, framkvæmdastjóra Austurhafnar-TR, um 3,2 milljarðar króna miðað við reiknað meðalgengi evru, eftir hrun og út verktímann, sem er 165 krónur. Þar af er tilboðsverð kínverskra verktaka 12,5 milljónir evra eða  2.062 milljónir miðað við sama gengi. Þá bætist við kostnaður á lituðu gleri í glerhjúpinn sem keypt var frá Þýskalandi. Það kostar 1,3 milljónir evra eða um 214,5 milljónir m.v. meðalgengi. Auk þessa fellur til innlendur kostnaður upp á 919 milljónir króna á núverandi verðlagi. Samtals gerir þetta um 3,195,5 milljónir króna m.v. meðalgengi. Það samsvarar verði á um 150 meðalíbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Gallar hafa komið fram í stálhornum á svokölluðum Quasi brick kubbum á glerburðarvirki á suðurvegg hússins. Ekki liggur fyrir hversu mikill kostnaður verður af endursmíði teninganna sem mun miðað við efniskröfur í útboði sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum falla á kínverska verktaka.

- Sjá nánar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins