Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík, hlýtur verðlaun Evrópusambandsins fyrir nútímabyggingarlist, kennd við Mies van der Rohe, fyrir árið 2013. Þetta var tilkynnt í dag.

Verðlaunin, sem veitt eru annað hvert ár, eru einhver virtustu verðlaun á þessu sviði í heiminum.

Verðlaunin voru sett á stofn árið 1987 af Evrópusambandinu og Stofnun Mies van der Rohe í Barcelona. Þeim er ætlað að vekja athygli á því sem best er gert í evrópskri byggingarlist og koma allar byggingar sem lokið var við á árunum tveimur fyrir afhendinguna til greina. Í ár voru 350 byggingar frá 37 Evrópulöndum tilnefndar til verðlaunanna sem nema alls 60 þúsund evrum.

Í rökstuðningi sínum leggur formaður dómnefndar, Wiel Arets, einkum áherslu á þrennt: þá ákvörðun að ljúka við byggingu Hörpu þrátt fyrir kreppuna, einstaka tengingu byggingarinnar við höfnina og umhverfi Reykjavíkur og merkilega samvinnu við Ólaf Elíasson um glerhjúpinn utan um húsið.

Harpa er verk arkitektastofu Henning Larsen í Danmörku, í samvinnu við Batteríið á Íslandi og Studios Ólafs Elíassonar í Berlín. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í Barcelona þann 7. júní næstkomandi.