Eigendur Hörpu hafa falið lögmannsstofunni Lex að að undirbúa dómsmál vegna fasteignamats Hörpu sem þeir telja að standist ekki lög. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Haft er eftir Pétri J. Eiríkssyni, stjórnarformanni móðurfélags Hörpu, að með málssókninni vonist eigendur til að lækka fasteignamatið umtalsvert.

Það er svokölluð kostnaðaraðferð sem notuð er við fasteignamat og er þá stuðst við byggingarkostnað. Hjá Hörpu er slíkur kostnaður metinn 28 milljarðar króna.

Á árinu 2012 hækkaði fasteginamat Hörpu úr rúmum 17 milljörðum í rúma 20 milljarða og hækkar í rúmlega 21 milljarð á næsta ári. Rekstur Hörpu hefur verið þungbær og er þessi fjárhæð fasteignamats meðal þess sem haft hefur áhrif á það.