Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri LSR – Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, stærsta og elsta lífeyrissjóðs landsins. Hún tekur síðsumars við af Hauki Hafsteinssyni sem verið hefur framkvæmdastjóri sjóðsins frá 1985 eða í 34 ár samfleytt.

Harpa er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands og meistara- og doktorspróf í verkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur með tímaraðagreiningu, tölfræði og vatnafræði sem sérsvið.

Harpa er reyndur stjórnandi með víðtæka þekkingu á íslensku fjármálakerfi og hefur átt mikil alþjóðleg samskipti á sviði fjármála fyrir hönd Seðlabankans. Hún hefur sem framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs borið meginábyrgð á að meta áhættu og veikleika í fjármálakerfinu og marka stefnu um þjóðhagsvarúð og eftirlit með lausu fé. Hún ritstýrir skýrslu bankans um fjármálastöðugleika.

Capacent ásamt sérstakri valnefnd innan stjórnar LSR hélt utan um ráðningarferli nýs framkvæmdastjóra, stjórnin tók síðan ákvörðun um ráðninguna.

„Stjórn lífeyrissjóðsins býður Hörpu Jónsdóttur velkomna til LSR og hlakkar mjög til samstarfs við hana þegar þar að kemur. Starfið vakti greinilega verulegan áhuga. Umsækjendur voru nær 50 og margir í þeim hópi ríkir af hæfileikum og reynslu. Það var því mikil áskorun að velja þann rétta en við erum afar ánægð með niðurstöðuna,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður stjórnar LSR.