Valitor hefur ráðið tvo nýja stjórnendur sem nú setjast í framkvæmdastjórn félagsins. Harpa Vífilsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Fjármálasviðs en Gunnar Sigurjónsson verður nýr framkvæmdastjóri Vöruþróunar- og rekstrarsviðs.

Harpa Vífilsdóttir hefur gegnt stöðu deildarstjóra reikningshalds Valitor frá árinu 2016. Veturinn 2015-2016 vann hún í reikningshaldi hjá Fjárvakri en starfaði áður sem endurskoðandi hjá KPMG árin 2006-2015, með áherslu á endurskoðun fjármálafyrirtækja.

Harpa lauk BSc. í viðskiptafræði og stjórnun frá Copenhagen Business School árið 2006, MSc. í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2009, auk þess sem hún hlaut löggildingu sem endurskoðandi árið 2013.

Gunnar Sigurjónsson hefur langa reynslu á sviði upplýsingatækni og vöruþróunar. Hann hefur starfað hjá Valitor síðan árið 2013 sem deildarstjóri hugbúnaðarþróunar og forstöðumaður á vöruþróunar- og rekstarsviði.

Á árunum 2009-2013 starfaði hann sem ráðgjafi á upplýsingatæknisviði Advania, en þar á undan hjá Kögun sem hugbúnaðarsérfræðingur frá árinu 2001. Gunnar lauk MSc. í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og BSc. í rafmagns- og tölvunarfræði árið 2001 frá sama skóla.

Um 330 manna fyrirtæki

Forstjóri Valitor er Herdís Dröfn Fjeldsted. Í framkvæmdastjórn sitja auk hennar, Hörpu og Gunnars þau Christine Bailey sem stýrir fyrirtækjasviði á Bretlandseyjum og markaðsmálum og Robert Gray, sem er yfir áhættustýringu.

Valitor er alþjóðlegt greiðslulausnafyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og kortaútgáfu og auðveldar viðskipti með vörur og þjónustu. Valitor var stofnað árið 1983 og eru höfuðstöðvar félagsins á Íslandi.

Starfsemin nær til 22 Evrópulanda með sterkri stöðu á mörkuðum á Íslandi, Bretlandi, Írlandi og á Norðurlöndum. Alls starfa 329 starfsmenn á starfsstöðvum Valitor í Hafnarfirði, Bretlandi og Danmörku.