Reykjavíkurborg hefur ráðið Hörpu Ólafsdóttur í starf deildarstjóra kjaradeildar á fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar sem jafnframt er formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar.

Harpa er með grunn- og framhaldsnám í hagfræði frá Georg-August Universität Gottingen í Þýskalandi og MBA próf frá Háskóla Íslands 2017.

Harpa hefur síðastliðin 15 ár gegnt starfi forstöðumanns kjaramálasviðs Eflingar og hefur mikla reynslu og yfirburða þekkingu á sviði vinnumarkaðsmála, af verkefnum á sviði kjaradeildar, s.s. greiningarvinnu og kjarasamningsgerð bæði á almenna markaðnum og einnig opinbera sviðinu og starfsemi stéttarfélaga til fjölda ára. Hún þekkir afar vel til kjarasamningsumhverfis og starfsmatskerfis Reykjavíkurborgar í gegnum setu í samstarfsnefnd Eflingar og Reykjavíkurborgar. Harpa hefur auk þess góða þekkingu af upplýsingakerfum bæði í gegnum starf sitt hjá Eflingu og ekki síður í gegnum starf sitt sem vörustjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Hug hf. þar hafði hún umsjón með innkaupum fyrirtækisins til endursölu og umsjón með samningum fyrirtækisins, hún hefur góða þekkingu og skilning á hagnýtingu upplýsingakerfa í rekstri og stjórnun.

Kjaradeild fjármálaskrifstofu fer með launavinnslu fyrir svið og stofnanir borgarinnar, túlkun vinnuréttar og samskipti við stéttarfélög og ennfremur rekstur, kerfisstjórn og þróun upplýsingakerfa sem tengjast starfsmannamálum.