Tæplega 200 milljóna króna tap var af rekstri samstæðu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. á árinu 2020 vegna víðtækra áhrifa sem heimsfaraldurinn Covid-19 hafði á reksturinn, m.a. með langvarandi lokunum og tekjufalli. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að til vitnis um áhrifin megi nefna að tekjur hafi lækkað um 56% milli ára. Tekjurnar námu 537 milljónum króna á liðnu ári samanborið við tæpar 1.210 milljónir árið 2019.

„Rekstrarframlag frá eigendum; íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg, nam í upphafi árs 450 milljónum króna auk viðbótarframlags vegna áðurnefndra áhrifa sem var 278 milljónir. Alls námu því tekjur samstæðunnar 1.245 milljónum króna sem er 414,6 milljóna króna lækkun frá fyrra ári. Gripið var til afgerandi aðgerða til að mæta þessari stöðu og mikill árangur hefur náðst varðandi lækkun á rekstrarkostnaði sem lækkaði um tæp 30% eða um 473 milljónir króna. Eigið fé nam 10.975,9 milljónum í árslok 2020,“ segir í tilkynningunni.

„Þessi niðurstaða ber þess glöggt merki að stjórnendur og starfsmenn Hörpu hafa staðið sig vel í krefjandi aðstæðum síðustu misseri þegar algjör forsendubrestur varð í rekstrinum. Beita þurfti öllum leiðum til að lækka kostnað samhliða því sem ný tækni og nýjar áherslur voru innleiddar í viðburðarhaldi. Það hefur sömuleiðis verið ánægjulegt að finna fyrir miklum stuðningi og skilningi eigenda hússins á þessum erfiðu tímum," er haft eftir Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur, formanni stjórnar Hörpu.

Stefndi í metár

Útlitið í rekstri og starfsemi Hörpu hafi verið mjög jákvætt í ársbyrjun 2020 og stefnt hafi t.a.m. í metár á sviði alþjóðlegs ráðstefnuhalds. „Umtalsverður árangur hafði náðst í hagræðingu og vaxandi framlegð var af kjarnastarfsemi. Raunin varð önnur er forsendubrestur varð í rekstri Hörpu vegna áhrifa faraldursins og tengdra sóttvarnaraðgerða frá byrjun marsmánaðar til ársloka. Strangar samkomutakmarkanir urðu til þess að takmarka þurfti opnunartíma hússins við einstaka viðburði á tímabilunum frá 23. mars til 7. maí og aftur frá 4. október til ársloka. Þegar forsendur viðburðahalds og ferðaþjónustu gjörbreyttust til hins verra brast jafnframt rekstrargrundvöllur veitingastaða, verslana og annarra þjónustuaðila í húsinu sem nær allir hættu starfsemi í Hörpu á árinu. Unnið er að samningum við nýja aðila sem koma til með að hefja starfsemi í Hörpu á komandi mánuðum,“ segir í fréttatilkynningu.

Nýjar leiðir í ábyrgu viðburðahaldi

Þrátt fyrir faraldurinn hafi verið haldnir 512 viðburðir í Hörpu samanborið við 1.303 árið 2019. Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu segist telja það ákveðinn varnarsigur í þessum erfiðu aðstæðum. ,,Starfsfólk Hörpu hefur í samvinnu við stóran hóp viðburðahaldara náð að gera það besta úr hverri stöðu sem uppi hefur verið og leitt ábyrgt viðburðahald á afar lausnamiðaðan hátt. Það ásamt markvissum aðgerðum í rekstrinum hefur skipt sköpum við að lágmarka tjónið," segir Svanhildur.

„Haldnir voru 330 listviðburðir, þ.e. tónleikar, leiksýningar og listsýningar. Þá voru haldnar 141 ráðstefnur, fundir og veislur eða aðeins um þriðjungur samanborið við 411 slíka viðburði á fyrra ári. Viðburðahald breyttist verulega með innleiðingu margvíslegra tæknilausna og voru haldnir stórir og smáir streymisviðburðir á sviði tónlistar og ráðstefnuhalds. Eigin viðburðir Hörpu voru um 44 og samanstóðu m.a. af streymistónleikum úr Eldborg og fjölskylduviðburðum. Um 65 þúsund aðgöngumiðar voru afgreiddir gegnum miðasölu Hörpu samanborið við um 232 þúsund árið 2019. Heildarvelta miðasölu vegna viðburða nam um 301 milljón króna samanborið við 1.294 milljónir 2019,“ segir í tilkynningunni.

Óbreytt stjórn

Á aðalfundi Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. sem haldinn var í gær var stjórn Hörpu kjörin óbreytt. Í henni eiga sæti Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir formaður, Árni Geir Pálsson, Aðalheiður Magnúsdóttir, Arna Schram og Guðni Tómasson. Forstjóri Hörpu er Svanhildur Konráðsdóttir.