Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. tapaði 548 milljónum króna í fyrra. Handbært fé félagsins lækkaði um 321 milljónir króna, úr 535 milljónum í 214 milljónir. Þetta kemur fram í ríkisreikningi 2014 sem birtur var fyrir skemmstu.

Rekstrartekjur Hörpu hækkuðu um 108 milljónir króna milli ára. Laun og tengd gjöld hækkuðu einnig, um 73 milljónir. Framlag ríkis og borgar til félagsins var 168 milljónir í fyrra og lækkar örlítið milli ára.

Spurð um rekstur Hörpu segir Auður Árnadóttir, fjármálastjóri Hörpu,  ljóst að fasteignagjöld komi þungt niður á rekstri félagsins. Fasteignagjöldin segir Auður vera 1,1 milljón króna á dag, sem gera um 400 milljónir króna á ári. Ef Harpa hefði ekki þurft að greiða nein fasteignagjöld á síðasta ári hefði tapið á rekstrinum samt verið yfir 100 milljónir króna á síðasta ári, sé miðað við þessar upplýsingar. Aðspurð segir Auður að áfram muni vera unnið að hagræðingu í rekstri Hörpu.

Eins og áður segir lækkaði handbært fé Hörpu um 60% milli áramóta. Auður vildi ekki tjá sig um stöðu handbærs fjár Hörpu að svo stöddu.