Stjórnendur Hörpu vilja að Sinfónía Íslands og Íslenska óperan greiði tvöfalt hærri húsaleigu en nú er. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Um er að ræða hækkun úr samtals 170 milljónum króna á ári í 341 milljón króna.

Rekstraráætlun Hörpu gerir ráð fyrir að rekstrartap verði 407 milljónir króna á þessu ári. Það bætist við tæpan milljarð króna sem ríki og borg leggja húsinu til vegna greiðslu á lánum.

Í úttekt KPMG á rekstri og skipulagi Hörpu kemur fram að stjórnendur Hörpu hafi horft til lækkunar fasteignagjalda og hækkunar á leigu bæði sinfóníunnar og óperunnar til að draga úr fjárþörf sinni. Nú sé hins vegar ljóst að fasteignagjöldin lækki ekki og telja KPMG að þó hækkun leigu hjálpi muni hún ekki koma í veg fyrir viðvarandi fjárþörf Hörpunnar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands ber meirihluta leigukostnaðarins sem myndi hækka úr 122 milljónum í 259 milljónir króna. Rekstraraðilar hljómsveitarinnar eru ríkissjóður og Reykjavíkurborg og myndi upphæðin því koma þaðan. Þetta eru sömu aðilar og eiga Hörpuna.