Harpa Grétarsdóttir hefur verið ráðin nýr markaðsstjóri RV. Hún tekur við starfinu af Kristbirni Jónssyni en hann hefur tekið við nýju starfi innan RV, sem yfirmaður heilbrigðissviðs RV og gæðastjóri fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Harpa hefur mikla reynslu af slíkum markaðsmálum, bæði er varðar neytendamarkað og heildsölumarkað. Hún vann áður sem markaðsfulltrúi hjá Icewear, en hefur auk þess unnið við markaðsstörf hjá Trackwell, Ásbirni Ólafssyni og Kaupási. Harpa hefur lokið MS gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum ásamt BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Harpa Grétarsdóttir, nýr markaðsstjóri hjá Rekstrarvörum:

„Ég er virkilega spennt að fá að taka við markaðsmálum RV á þessum tímamótum og styðja við áframhaldandi vöxt Rekstrarvara. Það er nóg af spennandi verkefnum framundan í stafrænni vegferð fyrirtækisins, auk þess að við verðum 40 ára í maí og því ber að fagna. Starfsandinn er að auki góður í þessu skemmtilega og rótgróna fjölskyldufyrirtæki."

Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Rekstrarvörum:

„Það er mikill fengur að fá hana Hörpu til starfa fyrir Rekstrarvörur og erum við afar ánægð að hafa fengið hana til liðs við okkur í RV fjölskylduna."