Í blaðamannastétt fer misjafnt orð af almannatenglum, en Björgvin Guðmundsson, fyrrverandi blaðamaður og ritstjóri og nú annar eigenda KOM ráðgjafar, segir að það hafi ekki verið erfitt að skipta um starfsvettvang.

„Það var aðallega erfitt að hætta sem blaðamaður. Það var stóri þröskuldurinn. Jú, maður hafði verið með ákveðna fordóma gagnvart almannatenglum, en í gegnum vinnuna var maður í miklu sambandi við almannatengla og maður skynjaði það að ef þeir unnu sína vinnu vel þá var gagn af þeim. Maður nýtti sér þetta oft sem frétta- og ritstjóri. Það er vel hægt að nota almannatengla til að afla upplýsinga fyrir fréttaskrif. Með þetta í hug hugsaði ég mér að ég gæti vel unnið þetta starf vel og í góðu samstarfi við fjölmiðla og það fólk sem þar vinnur.

Starfið snýst ekki um að villa um fyrir fólki eða afvegaleiða, heldur að aðstoða fjölmiðla. Það getur verið að ná í  manneskju sem blaðamaður þarf að ná í eða aðstoða hann við að afla upplýsinga með öðrum hætti. Ég sé eftir blaðamannsstarfinu, en þetta var hárrétt ákvörðun fyrir mig persónulega. Það er stundum skrýtið hvernig hlutirnir raðast upp, því ef ég hefði ekki hitt Friðjón, eða KOM ekki verið til sölu, væri ég eflaust á öðrum stað en ég er núna. Ég er mjög ánægður með það hvernig rættist úr þessu, en ég útiloka alls ekki endurkomu í fjölmiðla.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .