Þó Harry og Meghan Markle fái ekki lengur greitt úr sjóðum bresku konungsfjölskyldunnar eru þau ekki á flæðiskeri stödd fjárhagslega.

Í umfjöllun Forbes segir að auður þeirra sem stendur sé þó minni en ætla mætti. Talið er að Markle hafi þénað um 2 milljónir dollara eftir skatta af leiklistaferli sínum, og þá er talið að Harry hafi fengið um 10 milljónir í arf frá Díönu móður sinni, svo auðæfi þeirra voru ekki metin á nema á annan milljarð króna þegar þau sögðu formlega skilið við konungsfjölskylduna.

Samningar við Netflix og Spotify gætu þó breytt því á næstu árum. Enda kostar sitt að vera af konunglegum ættum. Fram að síðasta ári greiddi Karl Bretaprins, meirihluta af kostnaði hjónanna við ferðalög, laun starfsmanna og opinberar heimsóknir, sem Forbes metur á um 800 þúsund dollara, um 100 milljónir króna. Þá greiddu þau 4,7 milljónir dollara fyrir villu í Santa Barbara í Kaliforníu á síðasta ári. Við kaupin lögðu þau fram fimm milljónir dollara, og tóku tíu milljón dollara fasteignalán.

Konungsfjölskyldan greiðir hjónunum ekkert lengur og hafnaði beiðni þeirra um að skrá vörumerkið Sussex Royals.

Stærsti samningurinn við Netflix

Stærsti samningurinn er fimm ára samning við Netflix um þáttagerð sem metinn ár á um 100 milljónir dollara, um 13 milljarða króna. Þá gengu þau frá samningi við Spotify um hlaðvarpsgerð sem talið er að þau fái 15-18 milljónir dollara fyrir eða um tvo milljarða króna. Auk þess munu hjónin taka þátt í þáttaröð með Oprah um andlega heilsu í samstarfi við Apple TV+.

Ræður og fyrirlestrar geta reynst arðbær tekjulind fyrir hjónin. Talið er að JP Morgan hafi greitt Harry eina milljón punda, um 130 milljónir króna fyrir að halda ræðu á ráðstefnu fjármálafyrirtækisins í Miami í Flórída í febrúar árið 2020.

Fengu ekki greitt fyrir viðtal við Orpah

Viðtal sem Orpah Winfrey tók við hjónin og sýnt var á CBS á sunnudagskvöldið hefur vakið heimsathygli. Talsmaður hjónanna segir þau þó ekki sögð hafa fengið greitt fyrir viðtalið. Hins vegar er talið er að CBS hafi greitt Harpo, framleiðslufyrirtæki Orpah Winfrey á milli 7 og 9 milljónir dollara fyrir sýningarréttinn að þættinum, bæði í Bandaríkjunum og alþjóðlega. CBS rukkaði um 325 þúsund dollara fyrir hálfs mínútna langar auglýsingar í þættinum, sem er tvöfalt meira en gengur og gerist á þessum tíma vikunnar.