Talsverðar breytingar hafa átt sér stað á árunum 2009 til 2012 á markaði með miðlun skuldabréfa. Starfandi bankar og sparisjóðir hafa haft um og yfir 90% af hlutdeild á markaðnum á þessum árum.

Þrjú fyrirtæki hafa sótt mest á þessum markaði og aukið hlutdeild sína verulega á þessum fjórum árum. Landsbankinn jók hlutdeild sína úr 13,52% í 23,36% og er orðið stærsta einstaka fyrirtækið í miðlun skuldabréfa.

Þá hefur H.F. Verðbréfum tekist að halda sinni hlutdeild í kringum 5% eftir stórt stökk á árinu 2010 þegar fyrirtækið fór úr 0,85% hlutdeild í 4,79%. Hinn nýi Straumur fjárfestingarbanki hefur sótt talsverða hlutdeild á skömmum tíma og fór úr 1,42% hlutdeild á árinu 2011 í 10,84% árið 2012. Þess má geta að Straumur tók upp viðskiptavakt með ríkisverðbréf í október 2011 eftir að Saga fjárfestingarbanki lagði upp laupana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.