Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti stóð frammi fyrir harðvítugri gagnrýni á mánudagskvöldið vegna áforma hans um að ráðast í skattalækkanir heima fyrir sem ógna markmiði ríkja á evrusvæðinu um að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sínum fyrir árið 2010. Þetta kemur fram í frétt Financial Times í gær, en mánaðarlegur fundur fjármálaráðherra aðildarríkjanna 27 í Evrópusambandinu (ESB) fór fram á mánudag og þriðjudag í vikunni.

Fjármálaráðherra Þýskalands, Peer Steinbruck, var fremstur í flokki þeirra sem gagnrýndu áform Sarkozy og gerði hann jafnframt lítið úr hugmyndum Frakklandsforseta um að grípa þyrfti til aðgerða til að halda gengi evrunnar niðri til að verja hagsmuni útflutningsfyrirtækja á evrusvæðinu. "Ég hef ekki áhyggjur af sterkri evru - ég elska sterka evru," sagði Steinbruck, en mikill uppgangur er hjá þýskum útflutningsfyrirtækjum um þessar mundir. Auk Þýskalands voru Austurríkismenn, Finnar og Hollendingar á meðal þeirra þjóða sem töluðu hvað harðast gegn stefnu Sarkozy í ríkisfjármálum.

Sarkozy sagði að umbótastefna sín - eins og hann kallaði hana - gerði ráð fyrir nauðsynlegum skattalækkunum sem réttlættu það að Frakkar þyrftu hugsanlega fresta því til ársins 2012 að ná jafnvægi í ríkisfjármálum sínum, en á þessu ári er spáð 2,4% halla á rekstri ríkissjóðs þar í landi. Það eru aðeins þrír mánuðir síðan Frakkland, ásamt öðrum ríkjum á evrusvæðinu, samþykkti að ná því markmiði fyrir árið 2010 að rekstur ríkissjóðs yrði hallalaus.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.