Slagurinn um afhendingarmáta kvikmynda og annars efnis sem ekki er sent út í í gegnum sjónvarp fer sífellt harðnandi og kann að taka stökkbreytingum á næstunni. Apple og Microsoft hafa lengi vonast til að heimilistölvan, með sítengdu framboði internetsins, leysi sjónvarpið af hólmi sem miðstöð áhorfsins heima í stofu, og þróað til þess netsjónvarpið AppleTV og Media Center.

Neytendur virðast hins vegar halda fast í gamla góða sjónvarpið, og ófúsir að bæta við einu rafmagnstækinu í stofuna, ef marka má umfjöllun Forbes.com. Þar er hins vegar bent á að leikjatölvan kann að verða óvæntur vettvangur kvikmynda- áhorfs, og sagt frá því að dreifingarfyriræki Netflix, sem hefur boðið upp á pöntun og heimsendingu DVD-diska í gegnum netið, hyggist nú hugsanlega bjóða „streymandi“ kvikmyndir í gegnum leikjatölvur. Forbes segir frá orðrómi þess efnis að Netflix kunni að ganga til samstarfs við Microsoft og bjóða upp á þessu þjónustu í gegnum leikjatölvuna vinsælu, Xbox 360. Xbox er þegar nettengd og býður notendum að hlaða niður leikjum og leikjauppfærslum, og því þarf ekkert nema hugbúnaðaruppfærslu til að hægt verði að bjóða upp á kvikmyndir eftir pöntun.

Xbox býður raunar þegar upp á þess konar þjónustu, en hefur aðeins takmarkað magn kvikmynda til umráða. Netflix gæti margfaldað framboðið af efni, og gert niðurhlað kvikmynda í gegnum leikjatölvu að skeinuhættum keppinaut á þessum síharðnandi markaði.