Vélaframleiðandinn Rolls-Royce tapaði 4,6 milljörðum punda eða því sem samsvarar 650,5 milljörðum íslenskra króna, árið 2016. Fyrr á þessu ári þurfti fyrirtækið að borga bandarískum og breskum yfirvöldum 671 milljónir evra í bætur vegna máls sem tengist mútuþægni. BBC fjallar um ársuppgjör Rolls-Royce.

Rolls-Royce framleiðir flugvélavélar og flestir viðskiptasamningar sem fyrirtækið gerði eru gerðir upp í dollurum, því hafði veiking pundsins í kjölfar Brexit þjóðaratkvæðagreiðslunnar gífurleg áhrif á rekstur fyrirtækisins. Félagið tapaði 4,4 milljörðum punda vegna breytingu á gjaldmiðlum.

Hagnaður, að fráskildum einskiptisliðum, nam 813 milljónum punda, samanborið við 1,4 milljarð punda árið áður. Warren East, forstjóri fyrirtækisins, segir í samtali við BBC að Rolls-Royce væri í miðju kafi að innleiða hagræðingaráætlun.