Hart er nú lagt að Lord MacLaurin frá Knebworth, stjórnarformanni Vodafone í Bretlandi, að láta stöðuna af hendi nú þegar í stað þess að hanga í sæti stjórnarformanns þar til á aðalfundi félagsins í júlí. Ástæðan er stöðugt fall hlutabréfa að undanförnu og vilja menn sjá Sir John Bond, stjórnarformann HSBC, taka við stöðu MacLaurin.

Bréf í félaginu hafa verið á nánast stöðugri niðurleið síðan árið 2001 er þau komust í um 230 pens á hlut. Hafa þau lækkað um meira en helming síðan og standa nú í rétt ríflega 100 pens á hlut.

Í frétt á vefsíðu Daly Telegraph er sagt að nokkrir stjórnarmenn Vodafone vilji að Sir John Bond taki við stjórnarformennskunni eins fljótt og mögulegt er. Þörf sé að taka ákvarðanir um stefnubreytingu. Þá er einnig gagnrýnt að Lord MacLaurin muni eiga að fá 500.000 punda greiðslu sem hluta af starfslokasamningi, en hann hefur verið stjórnarformaður Vodafone síðan í janúar 1997. Er MacLaurin þó sagður halda fast í stöðu sína enda hafi hann átt mikinn þátt í að efla Vodafone í samvinnu við fyrri stjórnarformann, Sir Christopher Gent, sem er enn einskonar heiðursstjórnarformaður fyrirtækisins. Er líka sögð mikil reiði innan stjórnarinnar út í Gent sem talinn er ætla að beita sér gegn endurkosningu arftaka síns Arun Sarin. Gent er einnig sagður hafa reynt að koma í veg fyrir að Andy Halford yrði útnefndur sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Talsmaður Vodafone segir þetta þó ekki rétt, Gent hafi greitt Sarin atkvæði sitt. Segir talsmaðurinn að Lord MacLaurin verði áfram í stöðu stjórnarformanns.

Titringur í stjórninni fylgir í kjölfar þess að samstarfsaðili Vodafone í Bandaríkjunum, Verizon, ítrekaði áhuga sinn á að kaupa 45% hlut Vodafone í Verizon Wireless mobile. Talsmaður Verizon segir yfirtökuna á hlut Vodafone í félaginu vera forgangsatriði og að það muni leiða til hækkunar á bréfum Vodafone um 3,5%, eða í 125 pens á hlut. Hlutur Vodafone í Verizon er talinn vera að verðmæti 20 milljarða dollara (11,4 milljarðar punda) sem gæti skilað hluthöfum Vodafone góðum arði til viðbótar þeim 5 milljörðum punda sem reiknað er með að skili sér inn í félagið ef sala á Vodefone í Japan, til SoftBank, gengur eftir.

Sagt er að pressan hafi aukist til muna á Vodafone um að taka ákvarðanir í sölumálum eftir að bandaríski símarisinn AT&T tilkynnti um kaup á símafyrirtækinu BellSouth fyrir 67 milljarða dollara. Þessi kaup styrkja stöðu AT&T á bandarískum símamarkaði og þar er AT&T einnig komið með Cingular Wireless undir sama þak, en það félag er helsti keppinautur Verizon Wireless. Hugmynd AT&T er að nýta samlegðaráhrif og fækka störfum um 10 þúsund á árunum 2007 til 2009. Við samrunann á að ná fram 18 milljarða dollara sparnaði, eða sem svarar um 2 milljörðum dollara á ári frá 2008.