Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, segir ljóst að verið sé að takast á við mikla fjárhagslega hagsmuni, þegar fyrirtækið hefur verið að endursemja við stórnotendur um að hækka raforkuverð upp í það sem gengur og gerist á heimsmarkaðsverði í dag. Þetta kom fram í máli Harðar á ársfundi Landsvirkjunar í dag.

Fyrir 2003 var verðið alla jafna 25 til 35 dalir á megawattstund, fyrir alla fjóra viðskiptavini fyrirtækisins, en síðan hafa allir nýir viðskiptavinir komið inn á verðum sem samsvara um 30 til 45 dölum á megawattstundina.

Landsvirkjun hefur endurnýjað samninga við eldri notendur og stefnir það að því að því að níu af tíu viðskiptavinum fyrirtækisins verði komin á nýju verðin undir árslok.

Ríkið kaupi Landsnet

Þá sagði Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, að ríkisstjórnin hefði samþykkt að hefja viðræður við orkufyrirtækin um kaup ríkissjóðs á Landsneti.

Landsvirkjun á í dag meirihluta Landsnet, en aðrir hlutafar eru Rarik, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða. Landsvirkjun, Rarik og Orkubú Vestfjarða eru í eigu ríkissjóðs.

Þórdís Kolbrún benti á að Ísland hafi fengið undanþágu frá þriðja orkupakkanum um fullan aðskilnað milli þeirra sem flytja orkuna og þeirra sem framleiða hana. Þá væri óheppilegt frá sjónarhóli neytenda væri að framleiðendur rafmagns ættu þá sem dreifa raforkunni.