Harvard háskóli í Bandaríkjunum skilaði 34 milljóna dala tapi í fyrra, að því er kemur fram í USA Today. Samsvarar þetta um 4,1 milljörðum króna. Árið á undan var líka tap á rekstri skólans, eða um 7,9 milljónir dala.

Tekjur Harvard jukust um 5% á milli ára, en útgjöld jukust um 6%, en tekjur og gjöld voru bæði um 4,2 milljarðar dala. Laun og launatengd gjöld eru um helmingur útgjalda skólans.

Haft er eftir fjármálastjóra Harvard að þótt tapið sé aðeins um 1% af heildartekjum sé mikilvægt að draga úr kostnaði og halda rekstrinum réttu megin við núllið.