Það voru töluvert fleiri grænar tölur í kauphöllinni í dag en rauðar og þá hækkaði úrvalsvísitalan um 0,3%. Mest líf var í kringum viðskipti með hlutabréf Haga en gengi bréfa félagsins hækkaði um 1,6% í viðskiptum dagsins.

Jafnframt voru Hagar með mestu veltu dagsins sem nam 766 milljónum króna af 3,4 milljarða veltu kauphallarinnar. Kvika hækkaði um 1,4% í 267 milljóna veltu og gefur því lítið eftir nafna sínum í Geldingadal en bréf Kviku hafa hækkað um 25% frá áramótum. Þá hækkuðu hlutabréf í Arion banka einnig um 1,4% í 546 milljóna veltu.

Hlutabréf Icelandair náðu sér aldrei á flug í dag og féllu mest allra félaga eða um 1,2% í 35 milljóna veltu. Bréf Eimskips lækkuðu næst mest allra félaga, um 0,76% í 663 milljóna veltu. Þá lækkuðu hlutabréf Marel um 0,5% í 159 milljóna veltu eftir að hafa leitt hækkanir gærdagsins.

Gengi hlutabréfa í Reginn hf. hækkuðu um 1% í dag en félagið birti árshlutareikning sinn fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2021  eftir lokun kauphallarinnar í dag. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu hjá Reginn nam 1691 milljón króna sem er 9% hækkun frá sama tímabili í fyrra. Því verður fróðlegt að sjá hvernig hlutabréfum félagsins mun vegna á morgun.